︎︎︎

HITAEININGAR OG HEIMSPEKI



Vía  
16.04.2020
-

Vía ︎
„Hvert er samband mitt við líkamann minn?“ er spurning sem ég spyr mig stundum að þegar ég stend inni í eldhúsi og er að vigta matinn sem ég ætla að borða. Ég er að telja hitaeiningar eins og önnur hver manneskja árið 2020.

Hitaeiningarnar sem ég neita mér um eru tengdar einhverri rótgróinni og þrautþjálfaðri menningarlegri hugsun. Sú hugsun er marglaga. Fyrst og fremst er ég að reyna að komast nær því að búa yfir betri líkamsímynd, að komast í tæri við að eiga líkama sem er viðurkenndur, af flestum í samfélagi mínu, sem flottur. Á hinn bóginn gef ég mér að ég geti notað líkamann minn eins og tæki. Hann er hlutur, sem ég skarta hversdagslega, á meðan ég er „ég-ið“, persónan innra með honum. Þar af leiðandi ætti ég að geta borðað færri en þúsund hitaeiningar á dag og það ætti ekki að hafa áhrif á „mig-ið“ heldur einungis á líkamann minn. Þar að auki ætti að passa, samkvæmt ýmiss konar popp kúltúr, sjónvarpsefni, tímaritum og Instagram að ef ég grennist og lít betur út þá verði lífið mitt betra. Þess vegna ætti það að vera röklega satt að ég geti borðað færri en þúsund hitaeiningar á dag og lífið mitt verði betra án þess að það hafi nokkurs konar áhrif á persónuleikann minn, á „ég-ið“ mitt.