︎︎︎

BÖND ÁSTARINNAR - HEIMSPEKI HARRIOT TAYLOR MILL



Sýsifos  
26.01.2019
-

Sýsifos ︎
Á því augnabliki sem samband endar og tengingin rofnar stendur allt í brennandi báli. Best væri að sambandsslit þyrftu aldrei að eiga sér stað.

„Það væri best ef að þeir myndu bara deyja eftir að þeir hætta með manni.“ Sagði eldri kona við vinkonu mína, sem sat grátandi í strætóskýli, eftir að fyrsti kærastinn hennar hætti með henni. Við vinkonurnar hlæjum núna að sögunni, aldrei myndum við vilja að strákgreyið væri látið. Þessi sambandsslit voru þó best fyrir alla og augljós eftir á. Þau hættu saman og það var frekar venjulegt bara. Eitt af mörgum sambandsslitum í vinkonuhópnum þetta sumarið. Ekkert til að kippa sér upp yfir.

Við göngum öll í gegnum þau einhvern tímann á lífsleiðinni eða að minnsta kosti lang flest. Að skoða sambandsslit gæti kannski hljómað smásmugulegt í eyrum hins yfirvegaða heimspekings sem situr einangraður og hugsar út í það hvernig heimurinn ætti að vera, hvert sé eðli hans, og í sögu heimspekinnar hefur þetta málefni einmitt fengið þann sess: staða sambandsslitsins er sú að það sé ómerkilegri eða óæðri upplifun. Hversdagslegt. Eitt af megineinkennum heimspekinnar er þó að takast á við það sem við tökum sem gefnu. Skoða uppruna hugmynda okkar, hvaðan þær koma en líka hvað þær merkja. Ástin og brotið frá henni mun ekki hverfa úr mannkynssögunni og er einn mikilvægasti þáttur í lífi okkar í nútímanum. Hvers eðlis sem ástin svo sem er.

Ástin og sambandsslitið hefur þó ekki algjörlega horfið inn í tómarúm tilfinninganna þar sem ekkert loft er til staðar. Til eru þónokkrir heimspekingar sem sökkva sér í málefnið.

Einn af þeim heimspekingum sem við getum litið til þegar við skoðum uppruna hugmynda okkar um sambönd kynjanna og ástarsambönd í nútímanum er Harriet Taylor Mill.  Áhrif Harriet eru ótvíræð, þrátt fyrir að á tímum séu þau óbein. Til hugsunarheims hennar er ýmislegt hægt að sækja sem á fyllilega við í nútímanum.

Hugmyndir hennar ná yfir öll svið mannlegrar tilveru en hér mun ég fyrst og fremst varpa ljósi á hugmyndir Harriet um hjónabönd og skilnað þar sem á Viktoríutímunum var ekki mikið um annarsskonar sambönd en hjónaband karls og konu. Ég byrja á því að veita nauðsynlega innsýn inn í sögu persónunnar Harriet Taylor Mill – persóna sem lifði, hugsaði, fann – og var ekki eingöngu innblástursvél John Stuart Mill, heldur kona sem var hugsuður á eigin forsendum.

Ég mun leggja megináherslu á hugmynd Harriet um ástina og hvernig hún getur aldrei fullgerst í því valdamisvægi sem er til staðar á milli kynjanna og skýra hvernig ég sé þemu í þeim hugmyndum sem eiga enn við okkar samfélag í dag. Þá sérstaklega í ljósi valdamisvægis sem var uppljóstrað í kjölfar MeToo byltingarinnar; hvernig konur hafa selt tilfinningalegt heilbrigði sitt fyrir peninga eða völd.